Þegar barnið æfir skíði
Hlutverk foreldra: Skíðafélagið er rekið af foreldrum eins og allt er varðar utanumhald um æfingar og þjálfara, skipulag og framkvæmd móta, öryggismál, félagösstörf og annað er borið uppi af sjálfboðaliðastarfi foreldra. Þegar barn er skráð til æfinga hjá SKA er það yfirlýsing foreldra um að koma að starfi félagsins á einhvern hátt. Öll aðstoð er vel þegin - ekki hika við að hafa samband við formann SKA eða aðra í stjórn félagsins eða í stjórn alpa.- göngu eða brettadeild (nánari upplýsingar
hér) til að ræða hvernig þú getur komið að starfi félagsins. Það er gefandi, hressandi og skemmtilegt að starfa saman í SKA. Vinna við mót er skemmtileg og þar gefst vettvangur til að hitta aðra foreldra. Þeir sem ekki eru skíðandi fá far með stólnum upp og niður aftur. Hægt er að stoppa stólinn alveg á meðan sest er í hann og farið úr.
Stór liður í starfi félagsins er mótahald en þegar mót eru haldin þá þurfum við á öllum okkar mannaskap að halda. Þú þarft hvorki að kunna á skíði né vita í hverju það felst að halda mót - helstu verkefnin sem við þurfum að manna á mótum eru þessi:
- Portavarsla: horfa hvort barnið fari réttu megin við portið (stöngina). Því fleiri foreldrar sem taka þátt því færri port þarf hver og einn að fylgjast með. Ef barn dettur þarf að hjálpa því upp og fá það til að labba UPP FYRIR portið og halda áfram réttu megin við.
- Fjáröflun; sækja styrki til fyrirtækja fyrir mótahaldi og tækjum og búnaði.
- Undirbúningur og frágangur við mót: M.a. þarf að láta börnin hafa númer og merkja við hver erlu mætt. Aðstoða við að bera stangir og koma upp starti og marki. Taka á móti börnunum og fá vestin til baka og ýmis önnur tilfallandi verkefni.
- EKKI ER HÆGT AÐ HALDA MÓT ÁN FORELDRA!.
Hvað þarf ég að hafa í huga þegar barnið æfir skíði?
- Að barnið sé klætt eftir veðri. Góður búnaður er ullarföt, ullarsokkar, lamhúshetta eða buff innan undir hjálminn, snjóbuxur, úlpa og lúffur.
- Skylda er að vera með góðan hjálm, hann skal ætlaður til skíðaiðkunar, er hlýr og ver barnið. Hjálmar sem eru með hörðum eyrum verja betur en að þeir sem eru með mjúkum. Góð skíðagleraugu sem passa vel á andlit barnsins og í hjálminn eru nauðsynleg til að verja augu og andlit barnsins, ekki með of dökku gleri þar sem stór hluti æfinga fer fram í misjöfnum birtuskilyrðum. Bakhlíf er æskileg en ekki skylda.
- Passa að vera búin að borða og fara á snyrtinguna áður en mætt er á æfingu.
- Gæta þess að lyftupassinn sé á sínum stað. Lyftupassi er innifalinn í æfingagjaldi.
- Að barnið sé á skíðum sem hentar hæð þess. Miðað er við að efri brún skíða sé milli höku og nefs. Athugið þó að það er betra að vera á of litlum skíðum en of stórum.
- Skíði, bindingar, klossar og hjálmar mega ekki vera of gamalt, plast hefur ákveðinn endingartíma og verður stökkt og eiginleikar þess breytast á nokkrum árum.
- Ef barnið notar skíðastafi þarf að gæta þess líka að þeir séu passlegir á lengd. Gott er að fá þjálfara til aðstoðar þegar verið er að meta hvort endurnýja þurfi skíðabúnaðinn.
- Gott er að bera vax undir skíðin reglulega yfir veturinn. Fáið leiðbeiningar hjá þjálfara hversu oft þarf að bera undir. Það eru ýmsir sem taka að sér að vaxa og brýna skíði gegn greiðslu. Hægt er að prófa að auglýsa inn á síðu skíðafélagsins eða kaupa þjónustuna hjá Skíðaleigu Hlíðarfjalls.
Ef barnið þarf mann með sér á æfingum þarf það fylgd foreldris á æfingum í það minnsta fyrst um sinn eða þar til þjálfari segir annað.
Skiptimarkaður SKA á Facebook: https://www.facebook.com/groups/797509290353908
9-11 ára flokkur:
Þegar iðkandi færist upp í 9-11 ára hóp færast æfingar og keppni í norður- og suðurbakka í efsta hluta fjallsins oftast kallað að fara upp í Strýtu. Níu ára og eldri keppa í stórsvigi í Norður og/eða Suðurbakka, 10 ára og eldri keppa í Svigi í Norður og/eða Suðurbakka.
Ekki er skylda að eiga sérstök stórsvigsskíði, hlífar á stafi eða leggi til að slá stangir, það er eðlileg þróun að iðkandi byrji á því á milli 11-15 ára og fer það eftir getu og vilja.
Farið er á Jónsmót á Dalvík í mars. Keppt er á föstudagskvöldi og laugardegi og reiknað er með að það sé gisti eina nótt.
12-15 ára flokkur
Þegar iðkandi fer upp í 12-15 ára hóp eru kröfurnar ögn meiri og nú þarf að huga að kaupum á stórsvigsskíðum. Athugið að engin nauðsyn er að kaupa ný skíði. Börnin vaxa hratt og er SKA með skiptimarkað á facebook.
Nú fjölgar mótum og fara börnin á bikarmót. Ferðanefnd sér um að finna fjáraflanir en ef foreldrar eru með tengsl og/eða góðar hugmyndir að fjáröflun má gjarnan koma því á framfæri. Þeir sem eru duglegir í fjáröflunum ná að greiða þannig niður stærsta kostnaðarhlutann við mótin.
14 og 15 ára gefst færi á að fara í æfingaferð erlendis að hausti sé þess kostur. (Athugið að t.d. 14 ára að hausti keppir sem 14 ára allan veturinn)
16 ára+
Ný sett af skíðum og hjálmum sem þurfa að vera samþykkt á FIS mót
Keppt eftir FIS stigum
Fleiri æfingar
Fleiri mót