.
Skíðafélag Akureyrar er sérgreinafélag innan Íþróttabandalags Akureyrar. Í félaginu eru starfandi fagnefndir fyrir alpagreinar, skíðagöngugreinar og brettagreinar. Samkvæmt lögum félagsins er tilgangur þess að efla iðkun skíða íþróttarinnar bæði meðal keppnismanna og almennings og auka áhuga á gildi íþróttarinnar. Íþróttafélagið stendur fyrir þjálfun í íþróttinni og því er mikilvægt að samvinna og samheldni ríki meðal félagsmanna og stjórnenda deilda auk þess sem þeir kappkosti að vinna að framgangi félagsins og markmiðum. Stjórnarmenn og þjálfarar í félaginu eru hvattir til að hafa frumkvæði og stuðla að virkri og árangursríkri samvinnu. Hér er um margþætta samvinnu að ræða sem nær ekki aðeins til allra þeirra sem annast stjórnsýslu hjá félaginu, heldur einnig til iðkenda og starfsmanna. Þá nær samvinnan einnig út fyrir raðir félagsins eins og til foreldra, skóla, Íþróttabandalags Akureyrar, Íþrótta- og tómstundaráðs Akureyrar, Skíðasamband Íslands og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Stefnt er að samstarfi við önnur íþróttafélög og grunnskóla þannig að börnum og unglingum verði sköpuð tækifæri til íþróttaiðkunar á breiðum grunni. Fjölhæf kunnátta og leikni barna í mörgum íþróttagreinum á unga aldri skilar sér í öflugum keppnis- og afreksmönnum framtíðarinnar.
Skíðafélag Akureyrar var stofnað 6. Janúar 2001 sem arftaki Skíðaráðs Akureyrar en KA og Þór stóðu að Skíðaráði Akureyrar frá árinu 1938. Í þá daga skráðu iðkendur sig á æfingar ýmist hjá KA eða Þór og kepptu þá undir merkjum síns félags innan Akureyrar en oftast undir merkjum SRA eða Skíðaráðs Akureyrar utan heimavallar. Skíðaráð Akureyrar var eitt af sérráðum ÍBA en árið 1944 voru jafnframt starfandi sundráð, knattspyrnuráð og frjálsíþróttaráð á Akureyri.
Árið 1988 voru Skíðaráðsmenn þeir Þröstur Guðjónsson formaður, Magnús Gíslason, Jóhannes Kárason, Ívar Sigmundsson og Jónas Sigurbjörnsson. Ívar Sigmundsson var jafnframt forstöðumaður Skíðastaða sem rak Hlíðarfjall.
Júlíus Jónsson var kjörinn fyrsti formaður Skíðafélags Akureyrar en þegar það var gart var full sátt er um þessa breytingu hjá móðurfélögum KA og Þór, sem og Íþróttabandalagi Akureyrar, enda var hugmyndin að stofnun Skíðafélags Akureyrar að hluta til komin frá fulltrúum þeirra. Ákvörðun um nafn félagsins var tekin á framhaldsstofnfundi, en efnt var til samkeppni um það á meðal félagsmanna. Nafn félagsins verður skammstafað SKA.
Með stofnun hins nýja félags var Skíðaráð Akureyrar lagt niður. Breyting skíðaráðsins í félag var einkum til að auka félagsvitun skíðaáhugafólks og efla og styrkja félagsskap þess og yfirráð yfir þeim málefnum er varða málefni félagsins. Á stofnfundi félagsins voru því sett lög, samþykkt skipurit og kosið í sérgreinanefndir félagsins, þ.e alpagreinanefnd, brettanefnd, norrænugreinanefnd. Auk sérgreinanefnda eru í félaginu sjö starfsnefdnir sem sjá um afmörkuð verkefni eins og t.d. Andrésar Andarleikana, barna og unglingastarf, fræðslu og útbreiðslumál og fl. Núverandi heimasíða félagsins www.skidi.is var fyrst sett upp árið 2001.