Yfirlit yfir mannvirki og tæki

Pistill eftir Hermann Sigtryggsson - af eldri heimasíðu SKA frá 2001 

Stólalyfta: Stólalyfta var byggð 1967, 1000 m löng, hæðarmismunur 200 m. Afköst 580 manns á klst. Endastöð er í 700 m hæð yfir sjó.

Í ágúst 2001 var þessi stólalyfta tekin niður og hafist handa um byggingu nýrrar og fullkominnar stólalyftu á sama stað. Fyrsta skóflustungan var tekin 18. ágúst 2001 og um mánaðarmótin ágúst - september hófst vinna við undirstöður lyftumastra og endastöðva. Þetta verk annaðist byggingafyrirtækið Árfell á Dalvík.

Lyftubúnaður allur og möstur voru keypt frá austurríska fyrirtækinu Doppelmayr og kom fyrsta sendingin í Hlíðarfjall 12. október. Öll hönnun mannvirkisins er gerð af því fyrirtæki.

Fyrirtækið afhenti lyftuna fullbúna 20. desember 2001.

Lyftan er rúmlega 1000 m löng, hæðarmunur 200 m og afköst eru 2200 manns á klst. Lyftustólarnir eru fjögurra sæta og nýr og tæknilegur útbúnaður auðveldar fólki notkun lyftunnar.

Stromplyfta: Stromplyfta var reist 1974, 520 m löng diskalyfta, hæðarmismunur 200 m. afköst 520 manns á klst. Endastöð var í 900 m hæð. Árið 1986 var þessi lyfta flutt í Hjallabraut, en ný lyfta reist sama ár í Strompbrekkunni. Hún er svokölluð T-lyfta, 760 m löng, hæðarmunur 290 m og afköst 1000 manns á klst. Endastöð er í um 1000 m hæð yfir sjó.

Hjallabraut var fyrst reist norðan Skíðastaða 1962 og var þá 400 m löng kaðaltogbraut, en endurbyggð 1983. Þá var sett upp 400 m löng Borer togbraut sem afkastaði flutningi á 700 manns á klst. Hæðarmismunur 100 m.

Árið 1986 var þáverandi Stromplyfta flutt í Hjallabraut (diskalyfta). Hún er 600 m löng, hæðarmismunur 125 m og afköst 550 manns á klst.

Hólabraut var sett upp 1975 og var þá flutt úr Strompbrekkunni þar sem hún hafði verið í allmörg ár. Árið 1982 var Hólabraut endurbætt og þar sett Borer togbraut 320 löng, hæðarmunur 45 m og afköst 700 manns á klst.

Árið 1989 var Hólabraut endurbyggð og er þar nú 300 m löng diskalyfta. Hæðarmunur er 45 m og afköst 800 manns á klst.

Allar lyftur í Hlíðarfjalli eru af Doppelmayr gerð og eru staðsettar suð-vestan við Skíðastaði og upp í Reithóla. Afköst allra lyftnanna er samanlagt 4570 manns á klst. og hæðarmismunur á samfelldum skíðabrekkum sem þær eru í um 500 metrar.

Stökkbraut: 50 m stökkbraut er við "Ásgarð", í Snæhólum suðvestur af Skíðastöðum og hefur hún verið notuð frá því um 1952. Nær Akureyri, eða í svokölluðum "Miðhúsaklöppum" var möguleiki til að koma upp 10, 15 og 30 m stökkbrautum, en sennilega er fallið frá þeim hugmyndum.

Snjótroðarar: Í fjallinu eru þrír snjótroðarar af Kässbohrer gerð. Fyrsti snjótroðarinn sem keyptur var í fjallið var keyptur árið 1974 og var af Hammerle gerð.

Skíðageymsla: Árið 1980 voru reistir þrír 15 m2 skúrar við Skíðastaði. Þeir eru notaðir fyrir skíðageymslur og til að smyrja skíði.

Smáhýsi: Á skíðasvæðinu eru þrjú smáhýsi (skúrar byggðir 1983), hvert um sig 6 m2, notuð sem start- og markhús. Eitt húsið er á sleða, er það notað við göngu- og stökkmót og er dregið af snjótroðara að stökk- eða göngubraut eftir því sem við á.

Alþjóða-alpagreinabrekkur og -göngubrautir: Skíðabrekkur í Hlíðarfjalli hafa fengið viðurkenningu Alþjóða-skíðasambandsins fyrir alþjóða skíðamót í svigi og stórsvigi. Eftir nýjum reglum sambandsins uppfylla brekkur í fjallinu einnig kröfur fyrir alþjóðleg brunmót og risasvig og 10. júní 1999 barst tilkynning frá Alþjóða-skíðasambandinu um að þær hefðu hlotið viðurkenningu sambandsins fyrir alþjóðamót í risasvigi (Super G) og bruni (Downhill). Göngubrautir í Hlíðarfjalli, 5 og 7,5 km, fengu viðurkenningu Alþjóða-skíðasambandsins fyrir alþjóða göngumót árið 1998.

Vegur að Skíðastöðum var upphaflega lagður um 1951, en endurbyggður frá Glerá og uppeftir árin 1970-1972. Þá var skipt um jarðveg í bílastæði og það stækkað. Bifreiðastæði var stækkað verulega árið 1997 og malbikað í kringum Skíðastaði sumarið 1999.

Rafmagn var upphaflega lagt í Skíðastaði 1955, (loftlína) og þaðan í Strýtu 1964. Skíðabrekkur við "Stromp", "Hjallabraut" og "Hólabraut" voru flóðlýstar 1970-1975. Síðan hefur flóðlýsingin verið aukin og endurbætt og 1999 voru settir 60 ljósastaurar í göngubrautina og lýsir hún upp um fimm km af brautinni.

Allar rafleiðslur til mannvirkjanna og í skíðabrautunum eru nú lagðar í jörð.

Sími var lagður í Skíðastaði 1979. Kapall sem lagður var frá Lögmannshlíð í Skíðastaði var fenginn hjá Flugmálastjórn en hún hafði notað hann til margra ára í Vaðlaheiði. Sjálfboðaliðar grófu hann upp í Vaðlaheiði og settu hann niður í Hlíðarfjalli. Árið 1988 var símakerfið aukið og endurbætt. Nýr símakapall var lagður í Skíðastaði og öll önnur hús í fjallinu. Er mikið öryggi og hagræði að þessu símakerfi.

 

Öll mannvirki í Hlíðarfjalli eru í eigu Akureyrarbæjar, nema "Gönguhúsið" sem er í eigu Skíðafélags Akureyrar.