.
Unglingameistaramót Íslands var sett á Akureyri fimmtudaginn 21. mars við hátíðlega athöfn í Brekkuskóla. Ögmundur Knútsson varaformaður SKI setti mótið og Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri fór með hvatningarorð fyrir þátttakendur. Dagný Linda Kristjánsdóttir hélt síðan fyrirlestur um reynslu sína sem alþjóðleg keppnismanneskja á skíðum og fór yfir ferilinn sinn allt frá því að hún steig fyrst á skíði og til þessa dags þar sem hún er nú orðin móðir í Skíðafélagi Akureyrar. Ég held að það sé óhætt að segja að fyrirlesturinn hafi snert alla sem í salnum voru enda sameinaði inntakið þrautseigju, að setja sér markmið, sjá fyrir sér aðstæður og að með einbeittum vilja væri allt mögulegt. Eitthvað sem hægt er að nýta sér í öllu sem við tökum okkur fyrir hendur í lífinu.
Við setningu mótsins var orðið ljóst að veðurguðirnir yrðu ólíklega mótinu hliðhollir en starfsfólk SKA mætti eitursnemma upp í Hlíðarfjall til að meta aðstæður. Klukkan 11 var keppni dagsins blásin af bæði í alpagreinum og skíðagöngu. Keppendum var boðið upp á sund í sárabætur sem langflestir nýttu sér. Blásið var til Skautadiskós í Skautahöllinni sem þótti einnig vel heppnað og einhverjir nýttu sér tilboð á ís og veitingum í Ísbúð Akureyrar og Ísgerðin-Salatgerðin. Vel heppnaður dagur að mati þeirra sem við var rætt, þrátt fyrir allt.
Á laugardagsmorgun hefði geta brugðið til beggja vona en afar hvasst var uppi í Stýtu þegar þangað var komið og keppni dagsins seinkað um klukkutíma. Mikið hafði safnast fyrir af snjó og þrátt fyrir að starfsmenn Hlíðarfjalls hefðu verið að allan nóttina hafði aðeins tekist að undirbúa suðurbakkann fyrir keppni. Það varð því úr að hefja keppni í Suðurbakkanum og troða Norðurbakkann á meðan svo hann yrði klár ef að ákveðið yrði að klára stórsvigið líka. Keppni í svigi lauk um fyrir fjögur en krakkarnir stóðu sig stórvel og skíðuðu miðað við aðstæður í krefjandi brautum.
Ákveðið var að keppni í skíðagöngu myndi færast inn í Kjarnaskóg en var skjól fyrir vindinum. Keppni fór fram eftir fyrirætlaðri dagskrá í blíðviðri.
Á fundi mótsstjórnar og þjálfara var ákveðið að halda áfram og ljúka stórsviginu líka á laugardeginum. Spáin var afar óhagstæð aðstæðum í Hlíðarfjalli fyrir sunnudaginn og yfirgnæfandi líkur að ekki myndi nást að keppa. Í því ljósi var ákveðið að ljúka stórsviginu líka á laugardeginum - taka hlé á keppni og hefja aftur leika kl. 19.00 og keyra stórsvigið í gegn og hafa verðlaunaafhendingu og lokahóf á sunnudag. Þetta var samþykkt einróma á fundi mótstjórnar og þjálfara. Keppni í stórsvigi lauk svo rétt rúmlega tíu en aðstæður voru nokkuð góðar, keppendur og aðstandendur í góðu skapi og allt gekk áfallalaust fyrir sig.
Skíðagönguteymið okkar ákvað líka að bregðast við slæmri spá og ákveða strax í gær að keppa aftur í Kjarna í dag sunnudag og hefja keppni kl. 11.00 - örlítið fyrr en áætlað var til þess að allur hópurinn gæti komið saman á lokahófi kl. 13.00 í dag. Allt gekk samkvæmt áætlun og allir náðu að fá sér sæti áður en lokahófið hófst.
Við hjá Skíðafélagi Akureyrar erum þreytt en ánægð með hvernig til tókst og fyrir hönd félagsins vil ég þakka ykkur öllum fyrir komuna, samveruna og alla hjálpina. Til hamingju kæru unglingar með árangurinn og fyrir að velja skíðaíþróttina sem án efa mun gera ykkur þrautseigari en marga.
Góða ferð heim
Kristrún Lind Birgisdóttir
Formaður SKA
pósthólf 346 - 602 Akureyri
kt. 480101-3830
Banki Íslandsbanki
Reikningur nr. 0565-26-5099
skaakureyri@gmail.com
.