Að loknum Andrésarleikum og ræða Kötlu

Í 47. sinn eru Andrésarleikarnir að baki. Enn ein afar vel heppnuð veisla af einni stærstu vetraríþróttahátíð barna í Evrópu. Hér standa saman foreldrar, fyrrverandi og núverandi iðkendur, þjálfarar, velunnarar, félagasamtök, fyrirtæki, Akureyrarbær og aðrir sjálfboðaliðar undir styrkri stjórn Andrésarnefndarinnar. Skíðafélagið getur ekki starfað án Andrésarleikanna sem eru langstærsti einstaki fjáröflunarviðburður félagsins. 

Einn af lykilviðburðum Andrésarleikanna setningarathöfnin og í ár kom það í hlut Kötlu Bjargar Dagbjartsdóttur að halda setningarræðu leikanna. Það er með góðfúslegu leyfi Kötlu að birta ræðu hennar hér fyrir neðan. 

Ég vil nota tækifærið og þakka öllum sem að verkefninu koma fyrir þeirra framlag. Andrésarleikarnir eru alveg einstakir og það skilja þeir best sem hafa jafnframt verið þátttakendur. Látum orð Kötlu Bjargar duga til að ná utanum þá tilfinningu. 

Kristrún Lind Birgisdóttir 

Formaður SKA 2018-2023

 

Góða kvöldið 

Ég heiti Katla Björg Dagbjartsdóttir og er iðkandi í Skíðafélagi Akureyrar og er í landsliðinu í alpagreinum. Ég hef æft skíði frá því að ég man eftir mér og eru Andrésar Andaleikarnir mjög stór hluti af minni barnæsku. Ég held að þið skiljið ekki hvað ég elska Andrésar Andaleikana mikið. Það er bara einhver tilfinning sem ég fæ þegar ég hugsa um Andrés og er á leikunum, hvort sem ég var keppandi eða bara starfsmaður núna síðustu ár, sem er alveg ótrúleg. 

Ég er ein tilfinningabomba og það er smá fyndið að segja frá því að ég fæ alltaf svakalegan kökk í hálsinn, tárast og hjartslátturinn minn hækkar ekkert eðlilega í hvert einasta skipti sem ég sit upp í stúku og hlusta á setningarræðuna, svo það verður spennandi að sjá hvort ég nái að halda því niðri núna næstu mínútur þar sem ég er víst að fara með ræðuna sjálf í þetta skiptið. 

Þegar ég hugsa til baka og fer yfir Andrésar ferilinn þá eru nokkur móment sem koma upp í hugann. Og ef við byrjum bara á byrjuninni þegar ég var 5 ára á mínum fyrstu leikum og mætti upp í fjall þá tók á móti mér liðsstjóri. Hann átti að hafa hemil á okkur og sjá um ýmis atriði en það sem mér er minnisstæðast við þennan liðstjóra er að hann var alltaf að minna okkur á að fara á klósettið áður en við kepptum, ég hélt nú ekki, ég þurfti nú ekkert að pissa.

 Svo förum við upp í start í Hjallabrekkunni og ég þarf auðvitað að pissa um leið og ég kem þangað. Hver kannast ekki við stress pissið upp í starti? 

Svo eru nokkrir keppendur í mig og ég var svoleiðis að pissa á mig en liðstjórinn sagði við mig að ég ætti bara að drífa mig niður brautina og fara beint niður í hótel. 

Ég bruna á fullri ferð niður brautina og kem niður í mark og hver haldiði að hafi staðið þar niðri í markinu? Já það var hann Andrés Önd og ég ætlaði sko aldeilis ekki að missa af þeim félagsskap þannig ég lét bara vaða í gallann og hélt áfram að skíða. Það var svo ekki fyrr en við komum niður í hótel í lok dags að ég sagði mömmu frá slysinu svona áður en við stigum upp í bílinn. En ég missti allavega ekki af neinu þann daginn og hef sett það í vana að fara á klósettið áður en ég fer upp í start.

Ég gleymi því líka seint þegar ég renndi mér eitt árið í gegnum markið og liðstjórinn okkar gaf okkur þrist sem er mitt uppáhalds nammi. Hann setti standardinn frekar hátt fyrir liðstjóra næstu árin en þetta var því miður aldrei toppað. Það þarf víst ekkert mikið til að gleðja.

En talandi um tilfinninguna sem leikarnir gefa manni. Ég held að það sé fátt sem toppar þá tilfinningu og þegar lagið þegar maður labbar upp á svið gefur manni. Ég var næstum því búin að biðja þá um að spila það núna þegar ég labbaði upp á svið bara til þess að fá að upplifa það einu sinni enn. 

Og ég var beðin frá ónefndum aðilum hérna í salnum um að koma því á framfæri að maður verður aldrei of gamall fyrir verðlaunaafhendigarnar hérna í höllinni. 

Þegar ég var yngri þá fannst mér brettafólk svo nett. Mig langaði alltaf til þess að vera góð á brettum líka en þar sem ég er úr svakalegri skíðafjölskyldu þá hitti það ekki beint alveg í mark. Ég tuðaði alltaf og tuðaði um að fara á bretti en einhvern veginn fékk ég alltaf neikvætt svar. En einn daginn sagði pabbi að ég mætti fara á bretti þegar Andrésar Andaleikarnir væru búnir svo ég myndi ekki slasa mig fyrir leikana. Ég tók því. 

Ég veit ekki hvort þið séuð búin að fatta það en ég fattaði það allavega eftir á að fjallið lokar eftir Andrés svo ég komst aldrei á bretti. Ég komst svo að því síðar eftir að hafa prófað bretti að ég ætti nú bara að halda mig við skíðin.

Annars langaði mig að nýta tækifærið og benda ykkur á að njóta en ekki þjóta. Þið eruð að búa til minningar sem endast.

Þið hafið örugglega einhver heyrt það áður og ég held að það sé nokkuð mikið til í því að skíða og brettakrakkar eru byggðir úr einhverju öðru en allir aðrir. Það eru fáir sem nenna að standa í því að treysta á veðrið til þess að komast á æfingu. Ég veit það vel að það getur verið mjög erfitt að mana sig til þess að fara á æfingu og berjast á móti vindinum í rigningu og roki, skíða í bobbsleðabraut eða lenda stökk í grjótharðri lendingu. En þið munið átta ykkur á því síðar að þessar æfingar og þessi þrautseigja kemur ykkur lengra en ykkur hefði nokkurn tíman grunað. 

Það eru líka örugglega einhverjir hérna í salnum sem eru eitthvað hnjaskaðir eða meiddir. Það tekur á og ég held að ég tali fyrir nánast alla að það er fátt leiðinlegra en að þurfa að gera sjúkraþjálfunaræfingar og sitja á hliðarlínunni.

Ég fékk sjálf höfuðhögg fyrir rúmu ári og hef verið að glíma við það síðan. Ég get ekki sagt ykkur hversu oft mig hefur langað að gefast upp og láta meiðslin sigra. En með endalausri þolinmæði og þrautseigju þá hefst þetta á endanum og maður kemst á þann stað sem maður vill vera á. Aldrei gefast upp.

Mér finnst sorglega margir sem hætta að æfa því að það er eitthvað annað sem freistar. Skólinn, félagslífið eða eitthvað annað spennandi. Mig langar bara að segja.. að þið eruð ekki að missa af neinu. Ég vil meina að þeir sem hætta of snemma séu að missa af. Áttum okkur á því að það eru þvílík forréttindi að fá að stunda íþróttina sína og fá stuðning frá foreldrum og öðrum fjölskyldumeðlimum til þess að stunda það sem maður elskar. Skíðahreyfingin á stóran part í því að móta mig sem manneskju og ég hvet ykkur því til þess að halda ótrauð áfram, því þetta er lífið.

Eitt af því sem mér sárnar hvað mest er að sjá þegar fólk samgleðst ekki öðrum. Hrósum, klöppum, köllum og peppum hvort annað bæði í keppni og á æfingum. Þið munið fá það margfalt til baka. 

Við erum í einstaklingsíþrótt en það er svo mikilvægt að hvetja hvort annað áfram, líka keppinauta sína. Því hvað gerist þegar keppinauturinn þinn vinnur þig? Þú leggur þig enn meira fram til þess að vinna hann næst og svo koll af kolli og á endanum var þetta win win dæmi. 

Ég vil óska ykkur öllum góð gengis á leikunum, búið til góðar minningar og þegar ég sagði áðan að njóta en ekki þjóta þá var ég ekki að meina það. Ég vil sjá alla á fullri ferð með bros á vör næstu daga.

Og með þessum orðum eru Andrésar Andaleikarnir árið 2023 SETTIR