.
Gígja Björnsdóttir og Isak Stianson Pedersen eru hluti af landsliðshópi Íslands í skíðagöngu og fulltrúar SKA. Þau ætla að leyfa okkur að fylgjast með sínum æfingum og keppnum í vetur og hér kemur fyrsti pistill.
Fréttabréf frá Gígju
Nú er kominn nóvember og æfingatímabilinu fer bráðum að ljúka og keppnistímabilið tekur við. Haustið hefur verið gott hjá mér og hef ég æft bæði mikið og vel. Í ár er fyrsta árið mitt í landsliðinu og höfum við farið í tvær æfingaferðir til Frakklands í hæðarþjálfun. Sú fyrri í Font Romeu í 1800 metra hæð þar sem var hjólaskíðað og hlaupið og sú seinni í Tignes sem er í frönsku ölpunum. Í Tignes bjuggum við í 2100 metra hæð og æfðum þar hlaup og hjólaskíði, en flesta dagana fórum við upp á jökul í 2700 metra hæð. Uppi á jöklinum var alltaf sólskin og gott skíðafæri, en loftið var þunnt og líkaminn brást öðruvísi við álaginu en venjulega. Púlsinn var talsvert hærri en venjulega og mjólkursýra fljót að safnast upp í vöðvunum. Æfingarnar þar voru því einungis mjög rólegir langtúrar. Þetta var mitt fyrsta skipti í hæðarþjálfun og var það bæði skemmtilegt og lærdómsríkt. Um miðjan nóvember fór ég svo í viku ferð til Muonio í norður Finnlandi með landsliðinu. Þar var nóg af snjó og fengum við góða skíðadaga í finnsku skógunum. Þar kepptum við líka á fyrstu mótum vetrarins, en það voru sterk mót með meðal annars rússnesku og finnsku landsliðunum.
Í skrifandi stund er ég stödd í Lillehammer þar sem ég bý. Hér er veturinn óvenju lítið farinn að láta á sér bera og mér sýnist skíðafærið í Hlíðarfjalli vera mun betra :-). Næstu helgi fer svo keppnistímabilið af stað fyrir alvöru hjá mér, en þá er fyrsta Norges Cup helgin sem verður haldin í Gålå hér ofar í Guðbrandsdalnum. Svo taka við mót hverja helgi hér í Noregi og Svíþjóð fram að jólum.
Kveðja Gígja
pósthólf 346 - 602 Akureyri
kt. 480101-3830
Banki Íslandsbanki
Reikningur nr. 0565-26-5099
skaakureyri@gmail.com
.