Gjöf til minningar um Björgu Finnbogadóttur

 

Björg Finnbogadóttir var flestu skíðafólki á Akureyri kunnug. Björg, eða Bella eins og hún var iðulega kölluð, stundaði skíðaiðkun og var tíður gestur í Hlíðarfjalli allt fram á síðustu ár. Ef hún komst ekki sjálf upp eftir hafði hún lag á að spyrja frétta úr fjallinu, og fylgist þannig með flestu því þar fór fram. Skíðaáhugi Bellu var greinilega smitandi, börn hennar, barnabörn og nú síðast barnabarnabörn stunda íþróttina mörg hver af kappi. Bella var einn af frumkvöðlunum að baki skíðaíþróttinni á Akureyri og hús hennar stóð skíðafólki alltaf opið, hvort sem það vantaði gistingu, mat eða bara félagsskap. Bella lést þann 23. maí 2023, þá nær 95 ára að aldri.

Til minningar um Bellu var SKA færður styrkur, sem eyrnamerktur var til áframhaldandi aðstöðusköpunar fyrir iðkendur félagsins. Stjórn skíðafélagsins hefur ákveðið að nýta styrkinn í að festa kaup á nýjum tímatökubúnaði, og þykir það vel til fundið enda var mótahald í Hlíðarfjalli Bellu alltaf afar hugleikið.

Skömmu fyrir andlátið hafði Bella einnig látið útbúa tvo bikara sem hún hafði ákveðið að færa skíðafélaginu að gjöf. SKA mun tilnefna íþróttakarl og íþróttakonu ár hvert og veita þeim bikarana, sem bera mun heitið Bellubikarinn.

Skíðafélag Akureyrar færir afkomendum Bellu þakkir fyrir styrkinn, en tímatökubúnaðurinn mun nýtast félaginu vel og Bellubikarinn mun verða hvatning fyrir iðkendur félagsins til að sinna íþróttinni áfram af dugnaði.

Myndin hér að neðan sýnir Bellu á skíðum í Hlíðarfjalli um páskana 2018, rétt fyrir 90 ára afmælisdaginn. Í bakgrunn má sjá Harald Örn Hansen kenna dóttur sinni, Þórdísi Freyju grundvallaratriðin á skíðum.

Það var Skapti Hallgrímsson sem tók myndina, sem er birt með góðfúslegu leyfi hans.