María Guðmundsdóttir Toney er látin

María Guðmundsdóttir Toney, fyrrverandi landsliðskona á skíðum er látin. María var dyggur félagi í SKA og alin upp í brekkum Hlíðarfjalls. María varð margfaldur Íslandmeistari og keppti fyrir hönd Íslands bæði á HM unglinga og á heimsmeistaramótum um árabil. Segja má að allt líf Maríu hafi verið litað af skíðamennsku en hún stundaði nám bæði í skíðamenntaskóla í Geiló í Noregi og í skíðaháskóla í Bandaríkjunum. María var fyrirmyndar íþróttamaður og dýrmætur liðsmaður Skíðafélagsins. Hún var einstaklega glaðvær, jákvæð, brosmild og hvetjandi liðsmaður sem hafði jákvæð áhrif á umhverfi sitt hvert sem hún fór og hvað sem hún tókst á við. Við þökkum henni samfylgdina. 

Skíðafélag Akureyrar sendir fjölskyldu Maríu og aðstandendum hennar innilegar samúðarkveðjur. 

Minningarstund um Maríu verður haldin í Akureyrarkirkju föstudaginn 16. september kl. 13.00.