Skíðagöngumenn frá SKA byrjaðir að keppa

Þó að ekki sé kominn skíðasnjór hér á Akureyri eru skíðamót að fara af stað í Evrópu.
Nú um helgina tók landslið Íslands í skíðagöngu þátt í sínu fyrsta móti í vetur í Olos í Finnlandi. Með landsliðinu í för var líka Ragnar Gamalíel Sigurgeirsson frá SKA. Í landsliðinu er fyrir Isak Stiansson Pedersen sem keppir fyrir SKA. Isak og Ragnar tóku þátt í þremur keppnum, sprettgöngu á föstudag, 10 skíðagöngu með hefðbundinni aðferð á laugardag og á sunnudag í 15 km skíðagöngu með frjálsri aðferð.

Strákarnir stóðu sig vel og bætti Ragnar sig töluvert á heimslista. Mót svona snemma eru fyrst og fremst hugsuð sem æfing og undirbúningur fyrir átökin framundan.
Snorri Einarsson var fyrstur íslendinga og mun hann taka þátt í heimsbikarmótum fyrir jól. Isak og Ragnar munu eflaust báðir keppa á nokkrum mótum í nóvember og desember og munum við fylgjast vel með.

Öll úrslit frá keppnum helgarinnar má finna á heimasíðu Skíðasambands Íslands, ski.is