Skíðamót Íslands 2025 hefst á morgun í Hlíðarfjalli

Sterkasta skíðagöngufólk landsins keppir á Akureyri dagana 4. - 6. apríl og hefst á morgun, föstudaginn 4. apríl. Mótið stendur yfir alla helgina og er haldið af Skíðafélagi Akureyrar.

Mótið fer fram í einu besta skíðasvæði landsins í Hlíðafjalli og eru fjölmiðlar og gestir hvattir til að mæta og fylgjast með. Keppt verður í þremur greinum – sprettgöngu, göngu með hefðbundinni aðferð og göngu með frjálsri aðferð. Okkar fremsta skíðagöngufólk hvaðanæva af landinu tekur þátt.

Keppendur eru úr öllum aldursflokkum, frá 13 ára og upp í fullorðins flokk. Fyrsta keppnisgrein helgarinnar er sprettganga með frjálsri aðferð á föstudag. · Úrslit í yngri flokkum verða frá klukkan 15:50-16:10. · Úrslit í fullorðins flokkum verða klukkan 16:30 (konur) og 16:40 (karlar)

Laugardagur: Ganga með hefðbundinni aðferð - einstaklingsstart: · Keppni yngri flokka klukkan 11:00. · Fullorðins flokkar ganga 10km – ræsing kl 12:00.

Sunnudagur: Ganga með frjálsri aðferð – hópstart · Keppni yngri flokka hefst kl 11:00 · Fullorðins flokkar ganga 15 km – ræsing kl 12:00

„Við hlökkum til að taka á móti keppendum og gestum í Hlíðarfjall. Það er alltaf hátíðleg stemning þegar skíðagöngufólk kemur saman og sérstaklega gaman að sjá unga og upprennandi iðkendur keppa með reyndari þátttakendum,“ segir Valbjörn Ægir Vilhjálmsson mótsstjóri.